AGALMA

Formáli

„Ábyrgð í stað ásakana. Umræða um uppblástur á Íslandi hefur löngum snúist um hverjum hann sé að kenna. Landsmenn allir þurfa að axla ábyrgð á landinu. Það skilar engu að kenna sauðkindinni og bændum um. Það sem þarf til eru breytt lög, sem ganga út frá banni á að nýta auðnir eða land í mjög slæmu ástandi og það á þá við um stóran hluta hálendisins. Í öðru lagi þarf að styðja við þá sem vinna við að bæta landkosti og hjálpa þeim að gerast vörslumenn landsins. Þá þurfa að vera til miklu betri upplýsingar um nýtanlegt land.“

Þetta eru orð sem höfð voru eftir Dr. Ólafi Arnalds í Morgunblaðinu eftir að hann tók við norrænu umhverfisverðlaunum úr hendi Berit Brörby, forseta Norðurlandaráðs, í Osló þann 11. nóvember 1998. Verðlaunin fékk Ólafur fyrir verkefnið Jarðvegsvernd. Dómnefndin lagði áherslu á að verkefnið hafi aukið þekkingu Íslendinga á jarðvegsrofi og skapað skilning á alvarlegu ástandi landsins og frætt þjóðina um uppbyggilegar aðgerðir. Ólafur hefur verið virkur í baráttu um bætt ástand vistkerfa alla tíð síðan – og nálgast það verkefni með því að auka þekkingu á náttúru landsins, moldinni og ástandi lands. Hann hefur einnig tekið þátt í þjóðfélagsumræðu og jafnvel málarekstri sem að lokum greiddi leið almennings að upplýsingum um landbúnaðarstyrki.

Íslenskur jarðvegur er afar sérstakur á alþjóðlegan mælikvarða. Jarðvegur gróinna svæða myndast í gjósku sem fellur til í eldgosum og áfoki og því hefur bæði þurrlendi og votlendi mikla sérstöðu vegna áfoksefna og gjósku. Á Íslandi eru stærstu sandauðnir heims sem gerðar eru af basískum gosefnum en jarðveg auðnanna skortir lífræn efni og yfirborðið er afar óstöðugt. Áhrif frosts á eldfjallajarðveg eru mjög mikil, holklaki og ísnálar slíta rætur og eyða viðkvæmum gróðri. Ólafur Arnalds hefur átt drjúgan þátt í að móta þessa þekkingu á náttúru landsins á þeim 25 árum sem liðin eru frá athöfninni í Osló. Hann hefur ekki síður beint sjónum sínum að ástandi landsins og undirliggjandi ástæðum rangrar landnýtingar. Þessi þekkingargrunnur er nauðsynlegur fyrir bætta nýtingu vistkerfa og endurheimt landkosta. Öllu þessu eru gerð skil í þessari bók.

Stækkandi hópur vísindafólks sem margt hefur notið leiðsagnar Ólafs heldur baráttunni áfram og þekking á gróðurfari og þeim undraheimi sem í moldinni býr eykst með ári hverju. Upplýsingar um nýtanlegt land liggja nú að mestu fyrir og áfangasigrar hafa unnist varðandi friðun auðna. Enn er þó verið að nýta auðnir til beitar, svæði þar sem gróðurþekja er nánast engin. Þekkingin er til staðar og við höfum lengi vitað hvaða svæði um er að ræða, en kjark og löggjöf hefur skort.

Mold ert þú er viðamikið og vandað ritverk sem gefur yfirsýn yfir íslenskan jarðveg og aðstæður á Íslandi. Fróðleikurinn er settur fram með skýrum hætti, með fallegum og lýsandi myndum og skýringum. Von mín er sú að almenningur og stjórnvöld tileinki sér efni bókarinnar og taki ákvarðanir sem byggja á þekkingu, það mun verða landinu okkar og afkomendum til heilla.

Árni Bragason, landgræðslustjóri


Aðfaraorð höfundar

Þessi bók er um mold, sem fæðir og klæðir jarðarbúa, en alls ekki síður um íslenska náttúru enda er moldin meginþáttur vistkerfa og yfirborðsferla sem móta landið. Vinna við ritið hófst um síðustu aldamót í tengslum við kennslu við Háskóla Íslands og síðar Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkið þróaðist hægt, smáviðbætur á hverju ári, en það vatt sífellt upp á sig. Lokahnykkurinn við vinnu bókarinnar hófst með rannsóknarleyfi veturinn 2018‒2019.

Frá upphafi var miðað við útgáfu í opnum aðgangi á veraldarvefnum auk prentaðrar bókar. Því stendur hver kafli að hluta til á eigin fótum með sinn eigin heimildalista. Sum grunnatriði eru endurtekin eftir því sem umfjöllunarefni hvers kafla gerir kröfur um. Aðgangur að bókinni á veraldarvefnum er á www.moldin.is

Miðað er við að bókin sé í þægilegu broti til að auðvelt sé að fletta upp í henni eða nota hana til kennslu og ýmiss konar fræðslu.

Yfir 400 ljósmyndir, gröf og skýringarmyndir eru í bókinni enda er reynt að nálgast efnið myndrænt eftir því sem við verður komið. Ljósmyndir eru að mestu höfundarins sjálfs og var hluti þeirra tekinn sérstaklega fyrir bókina með dróna á síðustu árum, en flestar aðrar ljósmyndir eru úr myndasafni höfundar. Fífa Jónsdóttir teiknaði skýringarmyndirnar af mikilli færni og braut um bókina. Nokkrir aðrir aðilar hafa lagt til myndefni og er þeirra getið jafnharðan. Hafi þeir bestu þakkir fyrir. Nokkuð af myndefninu er fengið frá stofnunum í Bandaríkjunum og Evrópu sem eru helgaðar rannsóknum á jarðvegi og verndun hans. Fáeinar myndir koma tvisvar fyrir í mismunandi köflum bókarinnar þar sem fjallað er um sama efnið út frá ólíkum sjónarhornum.

Nánar er gerð grein fyrir tilurð efnis bókarinnar aftast í ritinu þar sem mörgu af því fjölmarga fólki sem hefur komið að efnisöflun er þökkuð samvinnan. Höfundur ítrekar þó hér þakkir til Fífu Jónsdóttur, Margrétar Jónsdóttur, Ásu L. Aradóttur, Sigmundar Helga Brink, Landgræðslunnar, Landbúnaðarháskóla Íslands, starfsfólks IÐNÚ útgáfu og Vísindasjóðs Orku Náttúrunnar (VON) sem styrkti útgáfuna.


Hlekkir: