AGALMA

Eftirmáli og þakkir

Bókin Mold ert þú byggist á starfsferli höfundarins við kennslu og rannsóknir. Upphafið má rekja til beitartilrauna Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala) á árunum fyrir 1980 (með Ólafi Guðmundssyni og Andrési Arnalds) og síðan til úttektar á gróðurfari og ástandi lands á fjölmörgum afréttum á árunum 1983‒1987 undir stjórn Ingva Þorsteinssonar. Það verkefni var unnið í nánu samstarfi við Ásu L. Aradóttur sem nú er prófessor í vistheimtarfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ).

Doktorsverkefni við Texas A&M háskólann var helgað jarðvegsmyndun á Íslandi, leirsteindafræði og að nokkru leyti jarðvegsrofi – undir handleiðslu Larry Wilding og Tom Hallmark. Í Texas komst einnig á samstarf við Koji Wada í Japan, sem var þá leiðandi í rannsóknum á leir í eldfjallajörð, og John Kimble hjá USDA/NRCS – sem m.a. greiddi leiðina við rannsóknir á jarðvegi auðna hérlendis. Á þessum árum birti höfundur allmargar greinar í ritinu Græðum Ísland í ritstjórn Andrésar Arnalds, en þar er einnig grein Ásu L. Aradóttur, Steve Archer (University of Arizona) og ÓA um fyrstu flokkun á ástandsstigum hérlendis.

Að loknu doktorsnámi féll það í minn hlut að leiða verkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala) og Landgræðslunnar við kortlagningu á jarðvegsrofi á landinu öllu sem Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Þorsteinn Tómasson, forstjóri Rala, studdu rækilega. Verkefnið hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 1998. Þar kom margt fólk við sögu, m.a. Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemsson, Fanney Gísladóttir, Ásgeir Jónsson, Arnór Árnason og Einar Grétarsson. Fanney Gísladóttir, Hjalti Sigurjónsson og Elín Fjóla Þórarinsdóttir unnu síðar að MS-verkefnum með höfundi helguðum rannsóknum á sandfoki. Ýmislegt efni í bókinni byggist á þessum rannsóknum.

Samhliða þessu vann höfundur að verkefnum á vettvangi Evrópusambandsins er tengjast jarðvegsvernd, m.a. með Anton Imeson (Amsterdam) og Luca Montanarella (EU-Joint Research Center) o.fl., sem reyndist dýrmæt reynsla fyrir jarðvegsverndarstarf á Íslandi.

Verkefnið Nytjaland var sett á laggirnar 1999 og fólst í kortlagningu á helstu gróðurflokkum landsins og landamerkjum. Það varð til þess að efla mjög færni á sviði landupplýsingatækni, en Sigmar Metúsalemsson, Björn Traustason, Einar Grétarsson, Fanney Gísladóttir o.fl. lögðu þar hönd á plóg. Kortlagningin á jarðvegsrofi og gagnagrunnur Nytjalands nýttust í rannsóknum á sandsvæðum, við gerð jarðvegskortsins og í ýmsum öðrum rannsóknum er lúta að náttúru landsins og ástandi þess.

- -

Næsta tímabil var helgað rannsóknum á moldinni vítt og breitt um landið auk þátttöku í sérstöku samtarfsverkefni Evrópusambandsins um jarðveg á eldfjallasvæðum Evrópu (COST-622). Mörg þeirra gagna sem nýtt eru í bókinni eiga rætur að rekja til þess samstarfs og langar mig að nefna sérstaklega Francois Bartoli (Frakkland), Peter Buurman (Holland), Otto Spargaaren (WRB-flokkunarkerfið), Eduardo Garcia-Rodeja (Spánn), Georges Stoops (Belgía), E.A. FitzPatrick (Skotland) og Paul Quantin (Frakkland). Einnig hófst samstarf við Graeme Paton (Aberdeen, Skotland) sem m.a. varð til þess að Rannveig Guicharnaud og Bergur Sigfússon luku þaðan M.Sc.- og doktorsprófi í jarðvegsfræði sem og Einar Grétarsson (GIS-aðferðir). Við söfnuðum miklu af gögnum um moldina á þessum tíma þar sem margir tóku í árar, m.a. Brita Berglund, Sunna Áskelsdóttir, Rannveig Guicharnaud, Elín Ásgeirsdóttir, Bergrún Óladóttir, Hlynur Óskarsson o.fl. Þróað var flokkunarkerfi fyrir íslenska mold á þessum tíma, sem Hlynur Óskarsson og fleiri úr COST-622 hópnum tóku virkan þátt í að móta, auk gerðar fyrsta jarðvegskortsins síðan á dögum Björns Jóhannessonar 1945‒1960 (ÓA, Hlynur Óskarsson og Einar Grétarsson), en mjög var eftir því kallað af hálfu Evrópusamstarfs um jarðveg (EU-Joint Research Center).

Á sama tíma jókst áhugi bókarhöfundar á áhrifum frosts á jarðveginn sem skilaði sér í sérstöku riti um frost í jörðu (Rit LbhÍ nr. 26) og viðamiklar rannsóknir á vistheimt hófust á Geitasandi nálægt Gunnarsholti (með Guðmundi Halldórssyni, Kristínu Svavarsdóttur, Ásu L. Aradóttur o.fl.).

Rannsóknir á kolefnisbindingu í jarðvegi hófust fyrir alvöru um aldamótin 2000 að hluta til með sama hópi, rannsóknir sem hafa stigmagnast á síðustu árum – m.a. undir handleiðslu Jóhanns Þórssonar hjá Landgræðslunni o.fl. Kaflinn um mold og loftslag í bókinni er m.a. byggður á riti ÓA og Jóns Guðmundssonar um sama efni (Rit LbhÍ nr. 133).

Ég átti í farsælu samstarfi við starfsfólk Landgræðslunnar allan minn feril – nú á síðustu árum við Jóhann Þórsson, Bryndísi Marteinsdóttur, Þórunni Pétursdóttur, Kristínu Svavarsdóttur o.fl., m.a. í tengslum við kennslu við LRT-GRÓ, sem áður var Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna, en einnig við mótun á rannsóknaraðferðum við mat á ástandi lands og verkefnið BirkiVist. Þá átti ég í samstarfi við USDA/NRCS í Nýju-Mexíkó (Jeff Herrick) sem er leiðandi stofnun við mótun aðferða til að meta ástand lands. Samstarf við Ásu L. Aradóttur við útgáfu á ritinu Að lesa og lækna landið var afar gjöfult og unnið í samstarfi við Landvernd og Landgræðsluna, en ritið er í opnum aðgangi.

Rannsóknarleyfi við University of Arizona í Tucson veturinn 2018‒2019 færði mig inn á lendur reglugerða um beit sauðfjár og ástand lands og leiddi mér fyrir sjónir misheppnaða framkvæmd þeirra (Rit LbhÍ nr. 118 – Á röngunni), en þar kynntist ég einnig framsæknu starfi á sviði þátttökuaðferða til að bæta landnýtingu og endurheimta landkosti (Rit LbhÍ nr. 130 og lokakaflar bókarinnar).

Á undanförnum áratug tók ég þátt í rannsóknum sem var ætlað að bæta skilning á sandauðnum landsins og rykmengun sem hefur fjölþætt áhrif á íslenska náttúru. Þau verkefni voru m.a. unnin í samstarfi við Harald Ólafsson og ekki síst Pövlu Dagsson-Waldhauserová (PhD-verkefni og nýdoktorsstyrkir). Þessi verkefni eru nú þáttur í fjölbreyttri alþjóðlegri samvinnu á þessu sviði sem hefur orðið til þess að fjöldi vísindagreina hafa verið skrifaðar sem tengjast uppfoki á Íslandi og á heimskautasvæðum, samvinnu sem Pavla hefur leitt af miklum myndarskap.

Farsælt og gjöfult samstarf við Ásu L. Aradóttur, Hlyn Óskarsson, Jón Guðmundsson, Berglindi Orradóttur, Kristínu Svavarsdóttur, Guðmund Halldórsson, Þórunni Pétursdóttur, Margréti Jónsdóttur o.fl. undanfarna áratugi á mörgum sviðum ber að þakka sérstaklega.

Hluti efnisins í Mold ert þú birtist í The Soils of Iceland sem kom út á vegum Springer-útgáfunnar árið 2015 en í þessari bók er lögð meiri áhersla á moldina í tengslum við hin stóru umhverfismál samtímans: loftlagsbreytingar, bágt ástand vistkerfa og vistheimt.

Nemendum í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskólann til margra ára eru þökkuð frábær samskipti, þeir hafa haft áhrif á uppbyggingu og efni bókarinnar. Margar myndir bókarinnar voru þróaðar í tengslum við kennslu í jarðvegsfræði – fyrst við Háskóla Íslands en síðar við Landbúnaðarháskólann.

- -

Mörg þeirra verkefna sem mynda uppistöðu þeirrar þekkingar sem hér er dregin fram í dagsljósið voru studd af Rannsóknasjóði Rannís, en einnig má nefna vísindastyrki frá Orkuveitunni (kolefnisbinding).

Margt fólk lagði til myndefni í bókina og er þeirra getið jafnóðum. Fær það bestu þakkir fyrir.

Landgræðslan og Landbúnaðarháskólinn hafa stutt þau verkefni sem hér eru gerð aðgengileg allan minn starfsferil og fá Ágúst Sigurðsson, Sæmundur Sveinsson, Björn Þorsteinsson, Ragnheiður Þórarinsdóttir (rektorar), Hlynur Óskarsson, Auður Önnu Magnúsdóttir, Snorri Baldursson heitinn og Isabel Barrio (deildarforsetar), sem og Þorsteinn Tómasson (forstjóri Rala), Sveinn Runólfsson og Árni Bragason (landgræðslustjórar) bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Vísindasjóður Orku Náttúrunnar (VON) styrkti útgáfu bókarinnar sem gerir það m.a. kleift að hýsa hana í opnum aðgangi svo að sem flestir geti nýtt sér efni hennar.

Höfundur þakkar afar gott samstarf við starfsfólk IÐNÚ, sem gefur bókina út, og Völundi Óskarssyni fyrir yfirlestur. Þær villur sem hér kunna að leynast eru þó einvörðungu á ábyrgð höfundar.

- -

Sigmundur Helgi Brink og Þórunn Pétursdóttir hafa stutt við útgáfu bókarinnar með ráðum og dáð á síðustu metrum verksins. Bestu þakkir! Guðmundur Ari Arnalds hannaði heimasíðuna sem miðlar bókinni í samvinnu við ÓA.

Á öllum stigum þessa verks hefur Margrét Jónsdóttir hjá Landbúnaðarháskólanum lagt drjúga hönd á plóg við uppsetningu á fyrri tilraunaútgáfum sem notaðar voru í kennslu og samræmingu heimilda og hvatt mig til dáða – hafðu bestu þakkir fyrir.

Uppsetning og tækniteiknun þessarar bókar var unnin af Fífu Jónsdóttur sem á mikinn heiður skilinn fyrir frábært verk og fyrir að koma því í örugga höfn.

Að lokum fær Ása L. Aradóttir, félagi minn í lífi og starfi, innilegar þakkir fyrir allt samstarfið og hvatninguna og fyrir að leggja til allmargar myndir í bókina.


Hlekkir: